Reglugerð

1.1 Sjóðurinn heitir Styrktarsjóður BSRB.

1.2 Styrktarsjóður BSRB er stofnaður samkvæmt samkomulagi BSRB annars vegar og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs, Reykjavíkurborgar og Launanefndarsveitarfélaga hinsvegar frá 24. október 2000.

1.3 Styrktarsjóður BSRB er eign þeirra félaga sem aðild eiga að sjóðnum skv. 2. gr. Heimili hans og varnarþing er í Reykjavík.

 

2. gr. Sjóðfélagar

2.1 Sjóðfélagar eru félagar eftirtalinna félaga: Félag flugmálastarfsmanna ríkisins, Félag íslenskra flugumferðarstjóra, Félag opinberra starfsmanna á Austurlandi, FOSS stéttarfélag í almannaþjónustu, Félag starfsmanna stjórnarráðsins, Kjölur stéttarfélag starfsmanna í almannaþjónustu, Sjúkraliðafélag Íslands, Starfsmannafélag Garðabæjar, Starfsmannafélag Hafnarfjarðar, Starfsmannafélag Húsavíkur, Starfsmannafélag Kópavogs, Starfsmannafélag Mosfellsbæjar, Starfsmannafélag Suðurnesja, Starfsmannafélag Vestmannaeyjabæjar, Tollvarðafélag Íslands.

2.2 Sjóðfélagar eru einstaklingar í opinberri þjónustu, sem ekki eiga rétt til aðildar í neinu bandalagsfélagi, starfsmenn BSRB og aðildarfélaga þess.

 

3. gr. Verkefni sjóðsins

3.1 Verkefni sjóðsins er að veita sjóðfélögum Styrktarsjóðs fjárhagsaðstoð í veikinda- og slysatilvikum en maka eða eftirlifandi börnum ef sjóðfélagi deyr.

3.2 Sjóðurinn styrkir einnig fyrirbyggjandi aðgerðir á sviði heilsueflingar og forvarnir gegn sjúkdómum.

 

4. gr. Tekjur

4.1 Tekjur sjóðsins eru skv. 3. gr. samkomulagsins undirrituðu 24. október 2000 og síðari breytingum, þar sem kveðið er á um iðgjaldagreiðslur launagreiðenda í fjölskyldu og styrktarsjóð.

4.2 Vaxtatekjur og annar arður.

4.3 Aðrar tekjur sem aðalfundur sjóðsins kann að ákveða hverju sinni.

 

5. gr. Stjórn og rekstur

5.1 Aðalfundur styrktarsjóðs skal haldinn í tengslum við aðalfund BSRB ár hvert. Hvert aðildarfélag sjóðsins hefur eitt atkvæði á aðalfundi.

5.2 Stjórn sjóðsins skal kosin á aðalfundi. Skal hún skipuð fimm mönnum til tveggja ára í senn og tveimur til vara. Stjórnin skiptir með sér verkum. Stjórnin ber ábyrgð á öllum fjárreiðum sjóðsins.

5.3 Stjórnun sjóðsins skal vera í samræmi við þau sjónarmið sem gilda skv. almennum stjórnsýslureglum.

5.4 Skrifstofa sjóðsins sér um fjárreiður og umsjón með sjóðnum.

5.5 Sjóðurinn greiðir allan kostnað sem af rekstri hans leiðir.

5.6 Ávallt skulu liggja fyrir gögn um hvaða einstaklingar geti átt rétt til greiðslu úr sjóðnum.

 

6. gr. Reikningar og endurskoðun

6.1 Reikningar sjóðsins áritaðir af stjórn hans og löggiltum endurskoðanda skulu lagðir fyrir aðalfund til samþykktar. Reikningsár sjóðsins er almanaksárið.

 

7. gr. Úttekt óháðra eftirlitsaðila

7.1 Fimmta hvert ár að minnsta kosti skal stjórn sjóðsins fá óháðan tryggingafræðing eða löggiltan endurskoðanda til þess að meta framtíðarstöðu sjóðsins og hvort sjóðurinn geti staðið við skuldbindingar sínar og semja skýrslu til stjórnar um athugun sína.

7.2 Stjórn sjóðsins skal ávallt gæta þess að sjóðurinn geti staðið við skuldbindingar sínar.

7.3 Geti sjóðurinn ekki staðið við skuldbindingar sínar ber stjórn sjóðsins að leggja fyrir aðalfund tillögu að breytingu á reglugerð sem tryggir að sjóðurinn geti staðið við þær.

 

8. gr. Ávöxtun sjóðsins

8.1 Heimilt er að ávaxta fé sjóðsins með eftirfarandi hætti;

a) í ríkisskuldabréfum, í skuldabréfum sem tryggð eru með ábyrgð ríkissjóðs.

b) með kaupum á markaðsskráðum verðbréfum,

c) í bönkum, sparisjóðum eða sambærilegum peningastofnunum,

d) á annan þann hátt er stjórn sjóðsins metur tryggan.

 

9. gr. Ráðstöfun fjármuna

9.1 Ávallt skal þess gætt að ráðstöfun fjármuna sjóðsins brjóti ekki í bága við tilgang hans eða verkefni sbr. 3. gr.

 

10. gr. Réttur til styrkveitinga úr styrktarsjóði BSRB

10.1 Rétt til styrkveitinga úr sjóðnum eiga sjóðfélagar sem uppfylla eftirtalin almenn skilyrði styrkveitingar hverju sinni:

a) Greitt hafi verið í sjóðinn vegna sjóðfélaga a.m.k í 6 mánuði fyrir styrkveitingu. Hafi sjóðfélagi öðlast rétt úr sjúkrasjóði annarra stéttarfélaga og glatað rétti sínum við flutning til Styrktarsjóðs BSRB er heimilt að greiða styrki til hans samkvæmt úthlutunarreglum sjóðsins eftir einn mánuð af greiðslum.

b) Maki og/eða börn sjóðfélaga eiga rétt á útfararstyrk við andlát sjóðfélaga enda hafi verið greitt til sjóðsins vegna hans síðustu 12 mánuði fyrir andlát.

c) Maki og/eða börn lífeyrisþega sem greitt var til sjóðsins vegna síðustu 12 mánuði fyrir lífeyrisaldur eiga sama rétt á útfararstyrk.

10.2 Heimilt er að veita þeim sem gengst undir starfsþjálfun, sækir námskeið eða stundar nám í allt að 24 mánuði og hefur síðan aftur störf á vinnumarkaði, endurnýjaðan bótarétt, hafi umsækjandi áður verið fullgildur sjóðfélagi. Sama gildir um þá sem hverfa frá vinnu vegna barnsburðar og veikinda.

10.3 Ákvörðun aðildafélags um úrsögn úr sjóðnum þarf að tilkynna skriflega til stjórnar sjóðsins. Úrsögn úr sjóðunum tekur gildi næstu áramót eftir að tilkynning þess efnis hefur borist til stjórnar. Óheimilt er að endurgreiða iðgjöld sjóðsins.

 

11. gr. Styrkveitingar

11.1 Bótaflokkar sjóðsins eru:

11.1.1 Sjúkra- og slysadagpeningar.

Sjóðurinn greiðir sjúkra- og slysadagpeninga ef launatekjur sjóðfélaga falla niður sökum veikinda eða slysa. Einnig er heimilt að greiða dagpeninga ef launatekjur falla niður vegna veikinda maka eða barna sjóðfélaga. Dagpeningar skulu vera ákveðið hlutfall af heildarlaunum styrkþega síðustu 12 mánuði. Skulu dagpeningar greiddir að hámarki í 180 daga, en þó aldrei lengur en veikindi eða óvinnufærni varir. Stjórn sjóðsins setur nánari reglur um bótafjárhæðir og tímalengd greiðslu. Skal stjórnin ætíð taka mið af fjárhagsstöðu sjóðsins á hverjum tíma.

11.1.2 Styrkir vegna sjúkra- og slysakostnaðar.

11.1.3 Forvarna- og endurhæfingastyrkir.

11.1.4 Stjórn sjóðsins er heimilt að stofna til annarra bótaflokka í formi líftrygginga/dánarbóta, slysatrygginga og annarra heilsufarstrygginga.

11.2 Sá sem fullnýtt hefur rétt sinn til sjúkradagpeninga ávinnur sér rétt að nýju þegar greitt hefur verið vegna hans til sjóðsins í sex mánuði eftir að hann hefur störf að nýju.

11.3 Stjórn sjóðsins skal á hverjum tíma fylgjast með því að reglur um styrkveitingar séu í samræmi við fjárhagsstöðu sjóðsins og markmið og þarfir sjóðfélaga eftir því sem unnt er.

 

12. gr. Lausn frá greiðsluskyldu

12.1 Ef farsóttir geisa getur sjóðstjórn leyst sjóðinn frá greiðsluskyldum sínum um stundarsakir. Einnig getur sjóðstjórn ákveðið að lækka um stundarsakir greiðslur ef afkomu sjóðsins virðist hætta búin.

 

13. gr. Tilhögun greiðslna úr sjóðnum

13.1 Afgreiðsla sjóðsins skal vera á skrifstofu Styrktarsjóðs BSRB.

13.2 Stjórn sjóðsins setur nánari reglur um fyrirkomulag á greiðslu dagpeninga og aðra starfstilhögun.

13.3 Stjórn sjóðsins og starfsmenn hans skulu hafa að leiðarljósi almennar stjórnsýslureglur um meðferð upplýsinga um umsóknir og afgreiðslu sjóðsins.

13.4 Allar greiðslur úr sjóðnum, sbr. gr. 3.1 eru háðar umsókn sjóðfélaga eða annarra er þeirra njóta. Umsóknum skal skilað á því formi sem stjórn sjóðsins ákveður og þeim fylgi nauðsynleg vottorð sem tryggja réttmæti greiðslna.

 

14. gr. Fyrning bótaréttar og greiðslna

14.1 Umsókn skal hafa borist skrifstofu sjóðsins eða hafa verið póstlögð áður en 12 mánuðir eru liðnir frá því að réttur til greiðslu stofnaðist, t.d. frá því að tekjutap hófst eða andlát varð annars fyrnist bótaréttur. Krafa til greiðslu samkvæmt ákvörðun sjóðsins fyrnist hafi henni ekki verið vitjað innan 12 mánaða frá því að tilkynning barst um greiðsluna.

 

15. gr. Endurgreiðsla iðgjalda

15.1 Iðgjöld sjóðsins endurgreiðast ekki.

 

16. gr. Upplýsingaskylda

16.1 Stjórn sjóðsins er skylt að upplýsa sjóðfélaga um rétt þeirra til aðstoðar sjóðsins með útgáfu bæklinga, dreifirita eða í handbókum sem dreift er til allra félagsmanna.

 

17. gr. Breyting á fjárhæðum og styrkjum

17.1 Stjórn sjóðsins skal leggja fyrir aðalfund breytingar á almennum reglum um fjárhæðir styrkja sem sjóðurinn greiðir.

 

18. gr. Breytingar á reglugerðinni

18.1 Breytingar á reglugerðinni verða aðeins gerðar á aðalfundi og þurfa þær að vera samþykktar með 2/3 hluta greiddra atkvæða fundarins. Slíkrar tillögu skal getið í fundarboði.

 

19. gr. Gildistaka

19.1 Reglugerð þessi tekur gildi hinn 17.10.2022

 

20. gr. Birting

20.1 Reglur þessar, svo og breytingar á þeim, skal birta opinberlega á vettvangi BSRB, t.d. í BSRB tíðindum og/eða á heimasíðu BSRB.

 

Samþykkt á aðalfundi Styrktarsjóðsins 17. október 2022.